Fræðslunetið hefur látið gera könnun á viðhorfi til starfsmenntunarnámskeiða fyrir fatlað fólk á Suðurlandi. Það var Félagasvísindastofnun Háskóla Íslands sem framkvæmdi rannsóknina/könnunina en  markmið hennar er að greina þörf fyrir starfsmenntunarnámskeið fyrir fatlað fólk á Suðurlandi. Könnunin var unnin með eigindlegum rannsóknaraðferðum, viðtölum við einstaklinga og rýnihópaviðtölum og fékk skýrslan með niðurstöðunum heitið: „Fatlaðir geta svo mikið en fá bara ekki tækifæri til þess“.

Niðurstöðurnar byggja á umræðum sem fram fóru í fjórum rýnihópum en helstu niðurstöður voru eftirfarandi: Fatlaðir þátttakendur óskuðu eftir meira sjálfræði í atvinnumálum og auknu aðgengi að almennum vinnumarkaði. Verklegt nám, starfskynningar og önnur námskeið væru sniðin að áhugasviði hvers og eins og mótuð með framtíðarsýn viðkomandi í huga. Í skýrslunni frá Félagsvísindasviði HÍ eru dregin fram þrjú meginþemu út frá svörum þátttakenda en þau eru: reynsla fólks af þátttöku á vinnumarkaði, skoðun fólks á því hvernig námskeið myndu gagnast best við undirbúning til þátttöku á almennum vinnumarkaði og hindranir og fordómar sem fatlað fólk upplifir á þessum vettvangi. Hér má sjá skýrsluna í heild sinni.