Árni Rúnar Þorvaldsson sem hefur verið búsettur á Höfn í Hornafirði hefur verið ráðinn til að sinna nýju starfi sem er fjármagnað er af Sóknaráætlun Suðurlands. Starfið er ætlað til að efla þjónustu og starfsemi í Vestur-Skaftafellssýslu á sviði framhaldsfræðslu/símenntunar og miðlunar háskólanáms. Starfið felur m.a. í sér að greina menntunarþarfir íbúanna, greiða fyrir hvers kyns námskeiðahaldi og hvetja íbúana til náms.
Árni Rúnar er 36 ára gamall og er grunnskólakennari að mennt. Undanfarin 13 ár hefur hann verið búsettur á Höfn þar sem hann hefur sinnt kennslu í Grunnskóla Hornafjarðar á öllum skólastigum. Hann hefur einnig kennt íslensku í framhaldsskólanum og verið tómstundafulltrúi sveitarfélagsins. Árni Rúnar hefur einnig verið bæjarfulltrúi á Hornafirði undanfarin 7 ár.
Árni Rúnar var inntur eftir því hvers vegna hann vildi breyta til og hvernig nýja starfið legðist í hann.
„Í vor urðu breytingar á mínum högum þegar konan mín var ráðin skólastjóri við Víkurskóla í Mýrdalshreppi og hóf störf þar í síðasta mánuði. Fjölskyldan er sumsé flutt til Víkur í Mýrdal. Það leggst mjög vel í okkur öll og við hlökkum til að takast á við ný verkefni á nýjum stað. Sama má segja um það starf sem ég hef fengið á vegum Fræðslunets Suðurland og Háskólafélags Suðurlands hér á svæðinu. Starfið leggst vel í mig og ég hlakka til að takast á við verkefnin á þeim vettvangi.“
Árni Rúnar er boðinn velkominn til starfa og óskar Fræðslunetið honum velfarnaðar í nýju starfi.