Málþing Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum og Fræðslunetsins – símenntunar á Suðurlandi í Reykjanesbæ, 3. október 2013 kl. 13 -17. Menntun jaðarhópa.

 

 

Málþingið bar yfirskriftina Nám án aðgreiningar og framhaldsfræðsla. Skipuleggjendur afmörkuðu sig við menntun fatlaðs fólks og umfjöllunin bar því keim af því þó að margt sem fram kom gildi um alla þá sem eru á jaðrinum, eru einangraðir eða útilokaðir frá samfélaginu á einhvern hátt.

Í örstuttu máli var fjallað um mikilvægi þess að auka þátttöku og auka grunnmenntun. Hugsa þetta sem nám alla ævi, efla sköpun og frumkvöðlamennt á meðal fullorðinna. Ólafur Páll Jónsson, dósent í heimspeki við Háskóla Íslands, flutti áhugavert erindi þar sem hann fjallaði um málefni jaðarhópa út frá heimspeki og félagsfræði menntunar. Hér er brot úr erindi hans: Samfélag án útilokunar er samfélag þar sem fólki er eftir fremsta megni tryggð lágmarksgeta til að taka þátt í lífi samfélagsins. Tækifærin eru ekki bara til staðar heldur þurfa þau að vera sanngjörn og raunhæf. Þeir sem tilheyra jaðarhópum skortir getu til þess að taka þátt en geta skerðist af ýmsu: kringumstæðum, andlegum og/eða líkamlegum þáttum og fordómum.

 

Nám innan og utan skóla er lykilatriði til að byggja upp getu. Menntun er í raun efnahagsleg eða félagsleg gæði, sem sagt grundvallarréttindi. Menntun hefur afgerandi forgang fram yfir önnur hefðbundin efnahagsleg og félagsleg gæði. Réttlátt ríki verður að tryggja öllum sanngjörn tækifæri til menntunar óháð efnahag og félagslegri stöðu.