INNA    HAFA SAMBAND     NÁMSVER

Search
Close this search box.
Athugið að Fræðslunetið er lokað vegna sumarleyfa 1. júlí – 6. ágúst.

Starfsfólk Fræðslunetsins í fræðsluferð

Starfsfólk Fræðslunetsins 2023
Starfsfólk Fræðslunetsins sem fór til Amsterdam haustið 2023

Dagana 16. – 20. október s.l. lagði starfsfólk Fræðlsunetsins land undir fót og fór í fræðsluferð til Amsterdam til að kynna sér ýmsar nýjungar í sambandi við atvinnumarkaðinn, fræðslu og kortlagningu hæfniþátta einstaklinga með stafrænum hætti. Fræðslunetið fékk styrk frá Erasmus+ til fararinnar. Þrjár stofnanir voru heimsóttar; House of skills, SkillLab og Oba, aðalbókasafnið í Amsterdam. Vel var tekið á móti hópnum og boðið uppá skilvirka fræðslu sem einkum varðaði áskoranir í breyttum heimi, m.a. vegna tækniframfara. Ljóst er að margt fólk mun á næstu árum þurfa að skipta um starfsvettvang þess vegna. Því þarf að kortleggja hæfni einstaklinga svo finna megi störf eða menntun við hæfi. Athyglisvert er að SkillLab er að þróa forrit (app) sem styðst við gervigreind í þessu skyni og verður spennandi að fylgjast með þróun og notkun þess í framtíðinni. Það mun spara mikla vinnu fyrir ráðgjafa, sem geta þá þjónustað mun fleiri við náms- og starfsval. Forritið kortleggur hæfni einstaklinga og útbýr einnig ferilsskrá með þeim upplýsingum sem notendur setja inn.
Á Oba bókasafninu er vel tekið á móti fólki og fjölbreytileikinn í hávegum hafður. Þar er þjónusta fyrir innflytjendur, atvinnuleitendur og ýmsa minnihlutahópa. T.d. er boðið uppá ókeypis kennslu í hollensku sem er m.a. innt af hendi af kennurum á eftirlaunum. Barnadeildin í safninu er einstaklega falleg og vel sótt af fjölskyldufólki. Bókasafnið hefur tekið nýjustu tækni í sína þjónustu og þar eru t.d. öll bókalán í sjálfsafgreiðslu.
Starfsfólk Fræðslunetsins sat ekki auðum höndum þegar fræðslufundum sleppti. Van Gogh safnið var skoðað, farið í siglingu um síki borgarinnar og örlítið var kíkt í verslanir og á veitingastaði. Dvalið var á hóteli í  bænum, Zandam sem er skemmtilegur lítill bær í næsta nágrenni við borgina, eða 10 mín. lestarferð. Það er samdóma álit hópsins að ferðin hafi tekist hið besta.