INNA    HAFA SAMBAND     NÁMSVER

Search
Close this search box.
Athugið að Fræðslunetið er lokað vegna sumarleyfa 1. júlí – 6. ágúst.

Í febrúar 2013 fékk Fræðslunetið gæðavottun EQM sem stendur fyrir European Quality Mark eða Evrópska gæðamerkið. Það er gegnsætt matsferli fyrir fræðsluaðila til að meta starfshætti sína út frá viðurkenndum gæðaviðmiðum. Árið 2010 voru í fyrsta skipti sett lög um framhaldsfræðslu á Íslandi en framhaldsfræðla er í raun menntun og fræðsla fyrir fullorðna. Í þessum lögum er þeim sem annast framhaldsfræðslu gert skylt að sækja um til Mennta- og menningarráðuneytisins að verða viðurkenndur fræðsluaðili og til að hljóta slíka viðurkenningu þarf fyrirtækið að vera gæðavottað. Fræðslunetið er nú viðurkenndur fræðsluaðili og uppfyllir þær kröfur sem Mennta- og menningaráðuneytið gerir til þess. 

 

En hvað felst í gæðavottun og hvaða merkingu hefur það fyrir viðskiptavini Fræðslunetsins? Í fyrsta lagi eru eftirtaldir þættir metnir samkvæmt lögum um framhaldsfræðslu:
1. aðstaða til kennslu og námskeiðahalds
2. skipulag náms og umsjón með því
3. námskrár eða námslýsingar
4. hæfni þeirra sem annast framhaldsfræðslu með tilliti til þekkingar og reynslu
5. fjárhagur fræðsluaðila og tryggingar
Gæðamatið grundvallast síðan á þessum þáttum. Tryggja þarf að húsnæði, aðstaða og aðbúnaður sé við hæfi fullorðinna. Leiðbeinendur þurfa að hafa tilskylda menntun og hæfni, námskrár þurfa að vera vottaðar af MMR og sýna þarf fram á að reksturinn sé í lagi. Í gæðamatinu er lögð rík áhersla á trúnað og þagnarskyldu starfsmanna og að öll skjalaumsjón sé í lagi og að upplýsingar um allt nám sem námsmenn stunda hjá fræðsluaðilanum séu vistaðar í gagnagrunni og að þeir geti fengið allar upplýsingar um námsferil sinn þegar á þarf að halda.
Til þess að vera viðurkenndur fræðsluaðili samkvæmt lögum um framhaldsfræðslu þarf einnig að bjóða uppá raunfærnimat og náms- og starfsráðgjöf og gildir gæðavottun einnig um þá liði starfseminnar.
Gæðamatið er framkvæmt af viðurkenndum eftirlitsaðila, BSI á Íslandi fyrir hönd Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og er úttekt gerð einu sinni á ári auk reglulegs sjálfsmats. Standist aðili ekki gæðamatið fær hann tækifæri til að bæta úr sínum málum en ef hann sinnir því ekki missir hann gæðavottunina og þar með viðukenningu MMR.
Gæðavottun Fræðslunetsins er trygging fyrir gæðum og að þeim stöðlum sem liggja til grundvallar sé fylgt. Gæðavottun gildir fyrst og fremst fyrir vottað, einingabært nám en öll starfsemin tekur samt mið af henni.