Á myndinni eru frá vinstri; Sveinn Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri FA, Eyjólfur Sturlaugsson, framkvæmdastjóri Fræðslunetsins, Irena Halina Kolodziej, Uni Þór Einarsson og Erna G. Árnadóttir, náms- og starfsráðgjafi Iðunni fræðslusetri.

Ársfundur Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins var haldin á Grand hótel 29.nóvember s.l. Af því tilefni voru veittar viðurkenningar til fyrirmynda í námi fullorðinna, en sú viðurkenning hefur verið veitt árlega fá árinu 2007. Í ár var tveimur einstaklingum veitt viðurkenningin. Hafa þeir notið náms- og starfsráðgjafar, farið í gegnum raunfærnimat og/eða í gegnum eina eða fleiri námsleiðir eftir námskrám FA. Þau sem fengu viðurkenningu í ár voru þau Uni Þór Einarsson og Irena Halina Kolodziej. Voru þeim afhentar spjaldtölvur og blómvendir í viðurkenningarskyni.

Irena Halina Kolodziej sem var tilnefnd af Fræðslunetinu flutti til Íslands árið 1991 og settist hér að. Hún er fædd í Póllandi og hafði stundað ferðamálanám á fagháskólastigi áður en hún flutti hingað. Henni gekk ekki að fá nám sitt metið hér á landi og fékk ekki vinnu við hæfi. Hún hefur starfað við margvíslegt síðan hún flutti hingað en lengst af við afgreiðslustörf. Hana langaði alltaf til að ná lengra og árið 2012 fór hún í Skrifstofuskólann hjá Fræðslunetinu, símenntun á Suðurlandi. Í framhaldi af því fór hún í raunfærnimat í skrifstofugreinum og í síðan í nám á Skrifstofubraut í Menntaskólanum í Kópavogi. Hún fór þaðan í þroskaþjálfafræði við HÍ en skipti yfir í Uppeldis- og menntunarfræði við HÍ og lauk BA prófi í febrúar 2018. Samhliða því námi fékk hún inni í mastersnámi í náms- og starfsráðgjöf og stefnir á að ljúka náminu árið 2020.

Fræðslunetið óskar Irenu innilega til hamingju með viðurkenninguna.