Íslenska fyrir starfsfólk Sveitarfélagsins Árborgar hjá Fræðslunetinu

Nýverið útskrifaðist hópur starfsfólks Sveitarfélagsins Árborgar úr starfstengdu íslenskunámi sem var samstarfsverkefni Fræðslunetsins og sveitarfélagsins.
Námskeiðið fór fram hjá Fræðslunetinu einu sinni í viku á vinnutíma og var í boði fyrir starfsfólk sem ekki hefur íslensku að móðurmáli. Samhliða námskeiðinu fengu þátttakendur aðgang að smáforritinu, Bara tala frá Akademías, sem er stafrænn íslenskukennari sem byggir á gervigreind og íslenskri máltækni. Á námskeiðinu var lagt upp með að styðja við notkun á Bara tala í starfstengdum aðstæðum og daglegu lífi. Þátttakendur lærðu einnig íslenska stafrófið, framburð og grunnorðaforða ásamt því að læra lestur og ritun einfaldra setninga með fjölbreyttum kennsluaðferðum. Áhersla var á talmál og starfstengdan orðaforða og notast var við Bara tala sem tæki til að æfa sig í framburði og setningum, skilja kaffistofuspjallið á vinnustöðum og auka sjálfstraust og öryggi í starfi. Leiðbeinandi var Sigþrúður Harðardóttir kennari.

Íslenska Árborg 2024