Þann 13. maí sl. voru sjö nemendur útskrifaðir af námskeiðinu Járningar og hófhirða. Útskriftin fór fram í reiðhöll Eldhesta í Ölfusi að viðstöddum mörgum forystumönnum hestamanna á landinu. Járningar og hófhirða er fyrsta námskeiðið sinnar tegundar í landinu og var um tilraunakennslu að ræða.
Námskeiðið var 60 kennslustunda; kennd var ný bók eftir Sigurð Torfa Sigurðsson sem hann skrifaði á vegum Fræðslunetsins. Kennslan fór fram í Fjölheimum, í Hamri verknámshúsi Fjölbrautaskóla Suðurlands og í reiðhöll Eldhesta. Kennarar voru járningameistararnir Sigurður Torfi Sigurðsson og Sigurður Sæmundsson. Þróunarsjóður framhaldsfræðslu styrkti bæði gerð kennslubókarinnar og tilraunakennsluna.