INNA    HAFA SAMBAND     NÁMSVER

Search
Close this search box.

Nýjung í starfsemi Fræðslunetsins og Háskólafélags Suðurlands
Starfsemi Fræðslunetsins og Háskólafélags Suðurlands er í stöðugum vexti og með tilkomu nýs húsnæðis hafa opnast möguleikar á að þjóna Sunnlendingum með öflugri hætti en áður. Fjölheimar (gamli Barnaskólinn á Selfossi) er orðinn miðstöð símenntunar á Suðurlandi þar sem fullorðnir geta lagt stund á fjölbreytilegt nám, bæði á framhalds- og háskólastigi. Næsta haust er áætlað að stíga enn eitt framfaraskref í þeim efnum þar sem áætlað er að bjóða upp á nám á Háskólabrú í staðnámi á Selfossi.

Keilir verður með opinn kynningarfund í Fjölheimum þriðjudaginn 11. júní kl. 17. Fundurinn er öllum opinn og þar verður hægt að fræðast um nám á Háskólabrú Keilis í Fjölheimum á Selfossi og heyra reynslusögur frá útskrifuðum nemendum. Verkefnisstjórar frá Keili kynna námstilhögun og svara fyrirspurnum. Háskólabrú Keilis er eins árs nám sem miðar að því að undirbúa nemendur sem eiga ólokið stúdentsprófi undir kröfuhart háskólanám. Háskólabrú hefur undanfarin ár markað sér sérstöðu í einstaklingsmiðaðri þjónustu og stuðningi við nemendur sem eru að hefja nám að nýju eftir hlé. Keilir er eini skólinn á Íslandi sem býður upp á aðfaranám í samstarfi við Háskóla Íslands sem þýðir að námið veitir útskrifuðum nemendum réttindi til þess að sækja um nám við HÍ sem og aðra háskóla á Íslandi, auk fjölda erlendra háskóla.
Kennsluaðferðir á Háskólabrú Keilis eru fjölbreyttar og hefur skólinn tileinkað sér speglaða kennslu þar sem áhersla er á virkni nemenda í kennslutímum. Námið hefur gefið fjölda fólks nýtt tækifæri til náms en alls hafa um 800 einstaklingar lokið námi á Háskólabrú Keilis og flestir þeirra tekist á við háskólanám í kjölfarið. Nám á Háskólabrú á Suðurlandi ræðst af lágmarksfjölda væntanlegra nemenda. Námið er lánshæft samkvæmt reglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna.