Mikill áhugi hefur verið fyrir íslenskunámi í haust hjá Fræðslunetinu, en hátt í 200 námsmenn munu ljúka 60 stunda íslenskunámskeiðum á haustönn. Flestir stunda nám í íslensku I en einnig verða haldin nokkur námskeiði í íslensku II. Mennta- og menningarmálaráðuneytið styrkir íslenskunámið og einnig veita starfsmenntasjóðir stéttarfélaganna námsmönnum veglega styrki til námsins.
Íslenskan er kennd víða um Suðurland, á Selfossi, í Uppsveitum og á öllum þéttbýlisstöðum austan Þjórsár, allt til Hafnar í Hornafirði. Á Selfossi sér Anna Linda Sigurðardóttir um námið og kennir einnig. Einn hópurinn í íslensku I heimsótti Pylsuvagninn á Selfossi á dögunum. Tilgangurinn var að æfa sig í að panta þennan þjóðarrétt á íslensku. Nemendur stóðu sig með stakri prýði í verkefninu. Ingunn Guðmundsdóttir eigandi Pylsuvagnsins bauð í kjölfarið öllum nemum uppá pylsur og gos og kunnum við henni bestu þakkir fyrir.