INNA    HAFA SAMBAND     NÁMSVER

Search
Close this search box.
Athugið að Fræðslunetið er lokað vegna sumarleyfa 1. júlí – 6. ágúst.

Margt var um manninn þegar nýtt náms – og kennsluver í Kirkjubæjarstofu var opnað með formlegum hætti föstudaginn 1. nóvember sl. Það eru Fræðslunetið og Háskólafélag Suðurlands, í samstarfi við Kirkjubæjarstofu, sem standa að opnun námsversins á Kirkjubæjarklaustri. Framkvæmdir við náms – og kennsluverið hafa staðið yfir undarnfarnar vikur og mánuði og það er nú tilbúið til notkunar. 

Opnunin er liður í því verkefni Fræðslunetsins og Háskólafélagsins að efla símenntun og framhaldsfræðslu á Suðurlandi sem og að bæta aðgengi fólks að háskólanámi í sinni heimabyggð. Í framtíðinni mun því allt námskeiðahald á vegum Fræðslunetsins og Háskólafélagsins fara fram í Kirkjubæjarstofu og þar er fjarfundarbúnaður félaganna í Skaftárhreppi staðsettur. Í Kirkjubæjarstofu verður einnig aðstaða fyrir nemendur sem stunda fjarnám á háskólastigi og öðrum skólastigum. Það er von aðstandenda verkefnisins að þessi aðstöðusköpun muni reynast samfélaginu vel og verða til þess að efla símenntun íbúanna og bæti aðgengi þeirra að hvers kyns námi. 

 

Í tilefni opnunarinnar buðu Fræðslunetið og Háskólafélagið íbúum Skaftárhrepps að koma og skoða aðstöðuna sl. föstudag og Kirkjubæjarstofa bauð upp á kaffiveitingar. Haldin voru nokkur stutt erindi þar sem aðstandendum voru færðar hamingju – og velfarnaðaróskir. 

Við hvetjum íbúa Skaftárhrepps til þess að kíkja í kaffi til okkar í Kirkjubæjarstofu á næstu dögum og vikum og kynna sér aðstöðuna og þá starfsemi sem er að finna í húsinu.

Frá vígslunni