Search
Close this search box.

Miklar breytingar hafa átt sér stað í þjónustu við fatlað fólk síðastliðna áratugi. Allir einstaklingar njóta t.a.m. félagsþjónustu frá sama aðila óháð eðli þjónustunnar. Þetta er grundvallarbreyting frá því sem áður var. Hugmyndafræði um sjálfstætt líf, jöfn tækifæri og fullgilda samfélagsþátttöku hefur rutt sér til rúms. Sérúrræði eru á undanhaldi og áhersla er lögð á að þróa stoðþjónustu sem eflir fatlað fólk til þátttöku í samfélaginu. Fjölmennt, símenntunar- og þekkingarmiðstöð heyrir nú undir lög nr. 27/2010 um framhaldsfræðslu. Í allri stefnumótun Fjölmenntar er lögð rík áhersla á að fatlað fólk eigi kost á símenntun til jafns við aðra þjóðfélagsþegna hjá sömu aðilum og veita fullorðnu fólki símenntun.

Það má því segja að stórt skref sé nú stigið, með undirritun samstarfssamnings á milli Fjölmenntar og Fræðslunets Suðurlands, í átt að því að greiða aðgengi fatlaðs fólks að almennri þjónustu samfélagsins. Við hjá Fræðslunetinu fögnum þeirri samskipan sem samstarfið við Fjölmennt felur í sér. Umræddar breytingar gefa Fræðsluneti Suðurlands tækifæri til þess efla starfsemi sína með því að mæta margvíslegum þörfum fjölbreytts hóps þátttakenda. Að feta nýjar brautir og takast á við ný verkefni er tilhlökkunarefni og gefur tilefni til að þróa enn fremur kennsluhætti og vinnubrögð.

Ég ræddi við nokkra sem sækja námskeið á haustönninni og spurði hvernig haustið legðist í þá.

Eyþór Jóhannsson er búsettur á Sólheimum og hefur sótt námskeið hjá Fjölmennt en ekki áður hjá Fræðslunetinu. Aðspurður hvernig hann sjái haustið fyrir sér á námskeiðum þar, segir Eyþór að það leggist mjög vel í hann. Hann hafi valið námsgreinar sem munu koma að góðum notum s.s. námskeið í skyndihjálp. „Mig langar til þess að prófa eitthvað nýtt og sýna ábyrgð og taka nýjum áskorunum“.

Kristján Jón Gíslason búsettur á Selfossi hefur ekki sótt námskeið áður hjá Fræðslunetinu en segir það leggjast mjög vel í sig að sækja námskeið nú í haust. Kristján sagðist hafa mestan áhuga á námskeiðinu Tónlist, söngur og hljóðfæri og hlakkar til að byrja og takast á við þessar breytingar.

Kristín Þóra Albertsdóttir, sem er búsett á Selfossi, hefur sótt námskeið hjá Fræðslunetinu, leir og myndlist. Auk tónlistar og leiklistar finnst henni fatasaumur og skyndihjálp áhugaverð námskeið. Um Fræðslunetið segir Kristín Þóra að sér finnist það sjálfsagt að gefa fötluðu fólki tækifæri til að læra ýmislegt þar. „Mér finnst spennandi að byrja hjá Fræðslunetinu. Ég vil hafa nóg að gera“.

Rakel Þorsteinsdóttir,  verkefnastjóri