Námsframboð haustannar af einingabæru námi hjá Fræðslunetinu hefur sjaldan verið eins fjölbreytt og nú í haust. Alls er boðið upp á sex mismunandi námsbrautir og eru þær kenndar ýmist í dreif- og/eða staðnámi.  Hér ná nefna námsbrautir eins og Grunmenntaskóla, Menntastoðir og Sölu- markaðs- og rekstrarnám. Einnig fór af stað í september sl. nám í svæðisleiðsögn í samstarfi við Menntaskólann í Kópavogi. Námsmenn koma víða að af Suðurlandi enda er starfssvæði Fræðslunetsins víðfeðmt, eða allt frá Þorlákshöfn til Hafnar í Hornafirði.

Frá haustinu 2012 hefur Fræðslunetið boðið upp á nám á Félagsliðabrú og Leikskóla- og stuðningsfulltrúabrú í samstarfi við Símenntunarmiðstöðina á Suðurnesjum og er kennslunni miðlað í gegnum samskiptaforritið Skype. Leiðbeinandinn er þá ýmist staddur í Reykjanesbæ eða í Fjölheimum á Selfossi. Námsmennirnir hins vegar nýta sér námsver í heimabyggð og stunda námið þar. Starfsstöðvar og námsver Fræðslunetsins eru á Hvolsvelli, í Kötlusetri í Vík, í Kirkjubæjarstofu á Kirkjubæjarklaustri og í Nýheimum á Höfn.  Einnig hefur nýlega verið tekið í notkun námsver á Hellu. Námsmenn hafa líka tækifæri á, ef þannig háttar til, að  fylgjast með kennslu annars staðar hafi þeir ekki tök á að mæta í kennslustundir. Fyrirlestrar eru líka teknir upp og gerðir aðgengilegir fyrir námsmenn  á Netinu.
 Í fyrstu fór kennslan eingöngu fram á rauntíma þar sem námsmennirnir mættu í fyrirlestra og verkefnatíma en í haust var tekin upp sú nýbreytni að kenna með aðferðum vendikennslu (e. flipped classroom). Það er kennsluform sem hefur víða verið að ryðja sér til rúms. Vendikennsla gengur út á að snúa við hefðbundnum kennsluháttum, leiðbeinendur taka upp fyrirlestra og gera aðgengilega fyrir námsmenn en nota kennslustundir í frekari úrvinnslu, verkefnavinnu og beitingu þekkingar. Námsmenn geta því sjálfir ákveðið hvenær þeir hlusta á fyrirlestra en vinna síðan áfram með efnið í kennslustund og undir frekari leiðsögn leiðbeinanda. Þetta hefur mælst vel fyrir hjá námsmönnum og leiðbeinendum. Með þessari aðferð gefst námsmönnum kostur á að hlusta á fyrirlestra þegar þeim hentar og það getur komið sér vel fyrir þá sem meðal annars stunda vaktavinnu og hafa ekki alltaf tök á að mæta í kennslustundir. Einnig gefur þetta námsmönnum tækifæri, ef þeir af einhverjum ástæðum þurfa að rifja upp námsefnið, að hlusta aftur og aftur og ná þannig betri tökum á viðfangsefninu.
Það er mikill vilji meðal starfsfólks Fræðslunetsins að halda áfram frekari þróun með þessa aðferð og innleiða hana frekar  hægt og sígandi.  

Höfundur greinarinnar er Eydís Katla Guðmundsdóttir, en hún starfar sem náms- og starfsráðgjafi og verkefnastjóri hjá Fræðslunetinu.