Mánudaginn 7. október var opnað með formlegum hætti nýtt náms – og kennsluver í Kötlusetri í Vík í Mýrdal. Það eru Fræðslunetið – símenntun á Suðurlandi og Háskólafélag Suðurlands, í samstarfi við Kötlusetur, sem standa að opnun náms – og kennsluversins í Vík.
Opnunin er hluti af af verkefni Fræðslunetsins og Háskólafélagsins sem lýtur að því að efla símenntun og framhaldsfræðslu á Suðurlandi sem og að bæta aðgengi fólks að háskólanámi í sinni heimabyggð. Í Kötlusetri verður því aðstaða fyrir námskeiðahald á vegum Fræðslunetsins og Háskólafélagsins auk annarra aðila sem koma að námskeiðahaldi á Suðurlandi hvort sem um er að ræða fjarfundarnámskeið eða staðnámskeið. Þar verður einnig aðstaða fyrir fjarnema á háskólastigi og öðrum skólastigum til þess að stunda sitt nám. Það er von aðstandenda verkefnisins að þessi aðstöðusköpun muni reynast samfélaginu lyftistöng hvað aðgengi að símenntun og annað nám varðar.
Í tilefni opnunarinnar voru Kötlusetri, Fræðslunetinu og Háskólafélaginu færðar hamingju- og velfarnaðaróskir. Einnig færði sveitarstjórn Mýrdalshrepps Kötlusetri veglega gjöf á opnuninni. Sveitarstjórn ákvað að gefa Kötlusetri kaffistofu sem nýtast mun starfsmönnum í Kötlusetri sem og því námsfólki sem mun í framtíðinni nýta sér aðstöðu Fræðslunetsins og Háskólafélagsins.
Við hvetjum íbúa Mýrdalshrepps til þess að kíkja í kaffi til okkar í Kötlusetri á næstu dögum og vikum og kynna sér aðstöðuna og þá starfsemi sem er að finna í húsinu.