INNA    HAFA SAMBAND     NÁMSVER

Search
Close this search box.

Ef þú ert námsmaður er próftaka eitt af því sem þú getur ekki forðast. Með því að huga vel að undirbúningi fyrir próf og árangursríkri námstækni þá eru meiri líkur á því að þú dragir úr álagi og komir í veg fyrir óþarfa streitu og kvíða. Það má skipta prófundirbúningi í tvo hluta; efnislega yfirferð og námstækni annars vegar og hins vegar persónulegan undirbúning.

 

Í efnislegum undirbúningi þá er forgangsröðun verkefna það fyrsta sem þarf að huga að, meta hvað sé mikilvægt og nauðsynlegt að framkvæma og hvað geti beðið betri tíma. Því næst er gott að gera gátlista eða flokka efnið niður eftir efnisatriðum, t.d. út frá kennsluáætlun, glósum eða kennslubók. Mikilvægt er að útbúa vinnuáætlun fyrir hvern dag sem prófatímabilið nær yfir til þess að fá heildarsýn. Eins er gott að gera áætlun fyrir hvern dag með hliðsjón af heildarskipulaginu. Mundu eftir að gera ráð fyrir hléi á milli lestrar- eða vinnulota og skipta um vinnuaðferð ef einbeitingarleysi fer að gera vart við sig. Ein besta minnisaðferðin er endurtekning. Rifja þarf upp við lok hvers efnisþáttar og í lok hvers dags. Þá er gott að velta því fyrir sér hvar viðkomandi finnst best að læra.

Í prófundirbúningi er líka mikilvægt að huga að uppbyggilegu sjálfstali og forðast hugsanir eins og ég get ekki, kann ekki og skil ekki. Uppbyggilegt sjálfstal er hluti af persónulegum undirbúningi en þar skiptir líka máli að huga að þáttum eins og hreyfingu, slökun, hvíld og mataræði. Það er mikil áreynsla, bæði líkamleg og andleg að læra fyrir próf og þá er gott að stunda hreyfingu til að fyrirbyggja úthaldsleysi eða vöðvabólgu. Slökun dregur úr streitu sem oft fylgir prófundirbúningi. Margar persónubundnar leiðir til slökunar fást t.d. í gegnum hreyfingu, tónlist, lestur o.fl. Einnig þarf að gæta þess að fá nægan svefn en ónógur svefn getur komið niður á getu manns til að muna og tileinka sér þekkingu. Gott er að nota slökun ef þér gengur illa að sofna á kvöldin. Í undirbúningi fyrir próf er líka nauðsynlegt að huga að því að líkaminn fái næga orku með því að borða hollan og góðan mat og forðast skyndirétti og sælgæti.

Besti undirbúningur fyrir próf er að læra vel, jafnt og þétt alla önnina. Ef þú hefur náð tökum á námsefninu og vanið þig á góð vinnubrögð felst sjálfur próflesturinn í upprifjun. Höfum alltaf hugfast að próf veita ákveðna yfirsýn og eru einungis einn mælikvarði af mörgum sem geta mælt kunnáttu og getu. Próf er áskorun en ekki ógn. Góður undirbúningur og sjálfstraust er besta veganestið í prófin.

Eydís Katla Guðmundsdóttir
Náms- og starfsráðgjafi – M.A