INNA    HAFA SAMBAND     NÁMSVER

Search
Close this search box.
Ragnhildur Gísladóttir, fyrirmynd í námi fullorðinna 2020

Á aðalfundi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA) sem haldinn var í fjarfundi í gær, fimmtudaginn 27. nóvember, var Ragnhildur Gísladóttir valin fyrirmynd í námi fullorðinna ásamt Guðbergi Reynisyni sem stundaði nám hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum. Viðurkenningin er veitt árlega þeim einstaklingum sem hafa breytt stöðu sinni eftir þátttöku í úrræðum FA, sýnt framúrskarandi árangur, frumkvæði, kjark og náð að yfirstíga ýmiss konar hindranir. Ragnhildur fór í raunfærnimat hjá Fræðslunetinu í janúar 2017 í almennri starfshæfni og hóf kjölfarið nám í Skrifstofuskólanum og í framhaldinu í Menntastoðum. Hún fór síðan í kjölfarið á háskólabrú Keilis og hóf nám haustið 2019 í tölvunarfræði í Háskólanum í Reykjavík. Þar er hún nú á öðru ári og stefnir ótrauð á að ljúka BS gráðu frá skólanum. 

Í ávarpi sem Ragnhildur flutti á fundinum undir yfirskriftinni “reynslusögur námsmanna” sagði hún m.a.: ,,Síðustu ár hafa verið nokkuð erfið andlega en þegar ég lít til baka þá get ég ekki verið annað en stolt af þeim árangri sem ég hef náð. Margir persónulegir litlir sigrar sem hafa leitt af sér nokkra stóra áfanga.

Í dag er ég á öðru ári í Tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík. Leiðin þangað hefur alls ekki verið auðveld og hef ég lært alveg ótrúlega margt um sjálfa mig, þá sem standa mér næst og ekki síður um fólk sem er tilbúið að hjálpa manni. Það er nefnilega til ótrúlega mikið af fólki sem vill manni vel og vill hjálpa manni að vera besta útgáfan af okkur sjálfum. Fólk sem hefur aðra sýn á mann en maður hefur sjálfur.

Ef Eydís eða Sólveig hjá Fræðslunetinu símenntun á Suðurlandi hefðu sagt við mig einhvern tímann á þeim tíma sem ég var í námi hjá Fræðslunetinu að ég ætti einn góðan verðurdag eftir að vera í fullu háskólanámi þá hefði ég aldrei trúað þeim.”

Fræðslunetið óskar Ragnhildi innilega til hamingju með tilnefninguna sem hún verðskuldar svo sannarlega. Hún hefur sýnt og sannað að með þrauseigju og dugnaði má láta drauma sína rætast.