INNA    HAFA SAMBAND     NÁMSVER

Search
Close this search box.

menntaverlaun

Frá afhendingu styrks Vísindasjóðsins

Árleg úthlutun styrks úr Vísinda- og rannsóknarsjóði Fræðslunets Suðurlands fór fram á hátíðarfundi Fræðslunetsins sem haldinn var föstudaginn 12. febrúar sl. Tvö verkefni hlutu styrkinn að þessu sinni. Meistaraprófsverkefni Guðrúnar Þórönnu Jónsdóttur  sem fjallar um tengsl og samstarf leik- og grunnskóla í Árnessýslu með tilliti til lestrarnáms ungra barna. Markmið verkefnisins er að bæta lestrarnám nemenda á yngsta stigi og að fagfólk í leik- og grunnskólum verði betur meðvitað um samfellu í námi barnanna og þar sem mikilvægi samstarfs leik- og grunnskóla. Guðrún Þóranna fékk 500.000 kr. styrk til verksins. Hún er nemandi á menntavísindasviði Háskóla Íslands.

Í öðru lagi fékk B.S. verkefni Sigurðar Torfa Sigurðssonar „Hófar og hæfileikar“ 300.000 kr. styrk. Verkefnið felst í því að bera saman hófa og járningar hrossa sem mæta til kynbótadóms og hófa og járningar almennra reið- eða keppnishesta. Tilgangurinn er m.a. að skoða hvort form, lengd og halli hófa og kjúku hafi áhrif á ganghæfileika íslenska hestsins. Sigurður Torfi er nemandi við Landbúnaðarháskóla Íslands.

Það var forseti Íslands herra Ólafur Ragnar Grímsson sem afhenti styrkinn að venju en þetta er áttunda árið sem styrkur er veittur úr sjóðnum. Alls bárust fimm umsóknir að þessu sinni en það eru þó nokkuð færri umsóknir en undanfarin ár. Það eru ýmis fyrirtæki, sveitarfélög, stofnanir og félagasamtök á Suðurlandi sem eru bakhjarlar sjóðsins.

Við sama tækifæri voru Menntaverðlaun Suðurland afhent. En það var Flúðaskóli sem fékk þau verðlaun fyrir verkefnið Lesið í skóginn. Þetta er í annað sinn sem Menntaverðlaun Suðurlands eru veitt en það var Fræðslunetið sem fékk þau verðlaun síðast.