Search
Close this search box.
Sævar Gunnarsson og Ásmundur Sverrir Pálsson

Sjá tölu Sævars þegar hann tók við viðukenningunni.

Sævar Gunnarsson  hlaut á ársfundi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins viðurkenningu sem fyrirmynd í námi fullorðinna. Sævar hefur verið í námi hjá Fræðslunetinu 2010 – 2012. Hann byrjaði á því að fara í raunfærnimat í húsasmíði og fékk þar 54 einingar metnar sem er afar góður árangur.  

Að því loknu fór í hann Grunnmenntaskóla og Nám og þjálfun; sótti auk þess fjarnám við aðra skóla bæði að sumri sem vetri og stundaði nám við FSu sem lauk með því að hann fékk sérstaka viðurkenningu frá skólanum þar sem hann fékk 10 í einkunn fyrir verklega hlutann á sveinsprófi.
Fjölmargar tilnefningar bárust til FA sem að þessu sinni veitti þremur námsmönnum viðurkenningu. Starfsfólk Fræðslunetsins óskar Sævari innilega til hamingju með viðurkenninguna. Hann er sönnun þess að fullorðnir námsmenn geta með eljusemi sinni og dugnaði náð miklum og góðum árangri í námi.

Í námsvísi á haustönn 2011 birtist viðtal við Sævar sem Þóra Þórarinsdóttir tók og er það birt hér aftur af þessu tilefni: 

„Þetta er eitthvað fyrir mig,“

hugsaði Sævar Gunnarsson þegar hann rakst á auglýsingu um raunfærnimat fyrir starfandi húsasmiði. Hann er búinn að vinna við smíðar frá því hann var um 15 ára gamall en hafði ekki menntað sig í greininni og er því ekki með réttindi sem smiður.
„Eftir að grunnskólanámi lauk lærði ég bifvélavirkjun í einn vetur en ég starfaði aldrei við hana,“ segir Sævar. „Ég var oft búinn að hugsa mér að fara í skóla og læra húsasmíði og ákvað því strax og ég sá þessa auglýsingu frá Fræðsluneti Suðurlands að drífa mig í raunfærnimat.“ Hann fór á kynningarfund og styrktist enn í ákvörðun sinni. „Við mættum á nokkra fundi og vorum svo látnir fylla út skýrslu og svo fór ég í viðtal þar sem ég var spurður út úr í tengslum við fagleg atriði.“
Sævar var ekki kvíðinn fyrir raunfærnimatið og segir að það hafi í raun verið mjög skemmtilegt. „Mér finnst þetta form sniðugt og það hentaði mér mjög vel.“
Hann fékk mjög gott mat, alls 54 einingar metnar, enda er hann búinn að starfa við fagið í rúma tvo áratugi. „Í raunfærnimatinu er verið að leggja mat á verklega þekkingu hvers og eins og ég fékk flestar verklegar greinar metnar. Mér finnst þetta mjög sniðugt og er ánægður með að þessi möguleiki bjóðist mönnum sem unnið hafa í mörg ár við ákveðna iðngrein.“
Í kjölfarið ákvað Sævar að skrá sig til náms bæði hjá Fræðsluneti Suðurlands og í Fjölbrautaskóla Suðurlands. „Mér fannst betra að taka grunnáfangana hjá Fræðslunetinu þar sem kennslan er meira miðuð við fullorðið fólk sem hefur margt hvert ekki verið í námi í fjölmörg ár. Ég treysti mér ekki til að fara beint í nám hjá Fjölbrautaskólanum og ég held að það hafi verið skynsamlegt hjá mér. Ég tók áfanga í grunnteikningu og iðnteikningu hjá Fjölbrautaskólanum en íslensku, ensku, stærðfræði og lífsleikni hjá Fræðslunetinu.“
Sævar var í skóla á morgnana en í vinnu eftir hádegi. „Það hentaði mér mjög vel. Vissulega þurfti ég að skipuleggja tíma minn vel þær 10 vikur sem skólinn tók en það hentar mér að taka svona tarnir.“
Sævar segir námið hafa reynst léttara en hann hafi átt von á. „Þetta var léttara en ég bjóst við en ég neita því ekki að ég þurfti að leggja á mig. Ég var búinn að mikla skólagöngu fyrir mér í mörg ár en raunfærnimatið ýtti við mér. Ég sparaði mér mikinn tíma í skóla með því að fara í matið. Það sem var erfiðast var að taka ákvörðunina um að fara í skóla. Ég var svolítið feiminn við það hvort ég kynni að læra. Maður miklar oft fyrir sér það sem maður veit ekki hvað er.“
Eftir að Sævar lauk grunnmenntaáfanganum hjá Fræðsluneti Suðurlands í vor ákvað hann að drífa sig í sumarskóla hjá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. „Það nám stóð í 6 vikur og var kennt síðdegis og á kvöldin. Ég neita því ekki að það var gríðarleg vinna, sérstaklega í íslenskunni þar sem við þurftum að lesa mikið heima. En við vorum þrjú sem fórum saman, skiptumst á að keyra og höfðum stuðning hvert af öðru. Það var mjög gott og ég hafði gaman af því námi. Í dag á ég bara eftir að taka áfanga í ensku og dönsku og lokaáfangann í húsasmíði til að mega ljúka sveinsprófi. Ég ætla að taka tungumálin hjá Fræðslunetinu í kvöldskóla, þá þarf ég ekki að klípa af vinnutíma mínum og samkvæmt þeirri áætlun þá tekst mér að ljúka þessu öllu næsta vor.“
Hann segir vini sína og samstarfsmenn hafa spurt dálítið út í námið og sumir hafi lýst áhuga á að kynna sér þá möguleika sem raunfærnimatið býður upp á. „Ég mæli hiklaust með þessu. Það er gott að geta klárað og fengið sín réttindi. Það skilar ákveðnu starfsöryggi, ég tel mig verða tryggari með vinnu á eftir og sjálfsöryggið verður líka styrkara. Ég er mjög ánægður með að hafa drifið mig af stað.“