Search
Close this search box.

Þann 29. maí s.l. lauk námskeiðinu Íslenska 2 á vegum Fræðslunetsins – símenntunar á Suðurlandi í Vík í Mýrdal. Það er orðin hefð fyrir því að síðasta kennslustundin sé opin spjallstund þar sem íslenskumælandi íbúar þorpsins mæta og spjalla við nemendur. Verkefnið er hluti af samstarfi Fræðslunetsins við Kötlusetur í Vík og hefur fengið það skemmtilega heiti ,,spjallmót“. Tilgangurinn er að skapa tækifæri fyrir nemendur til að æfa það sem fengist er við í kennslustofunni í raunverulegum aðstæðum og er ætlað að vera eins konar framlenging á kennslustofunni, ásamt því að tengja ólíka hópa samfélagsins og auka tækifæri nemenda til að æfa íslenskuna. Spjallmótið fór að venju fram úr okkar björtustu vonum, allir nemendur námskeiðsins mættu og fjöldi íslenskumælandi Víkurbúa mætti að auki. Að auki fengu nemendur námskeiðsins bókina Sjón þín, hugsun þín, skilningur þinn… Sjáðu bara í útskrifargjöf frá Svavari Guðmundssyni en bókin inniheldur orðtök og heilræði sem sett eru upp í sjónprófsform. Þuríður Lilja Valtýsdóttir, kennari námskeiðsins, og Harpa Elín Haraldsdóttir, forstöðukona Kötluseturs, sáu um skipulagningu og utanumhald.