Sveinn Aðalsteinsson formaður stjórnar Vísinda- og rannsóknarsjóðs Suðurlands, Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og styrkhafarnir: Aldís Erna Pálsdóttir, Aníta Þorgerður Tryggvadóttir og Ingibjörg Steinunn Sæmundsdóttir

Þann 10. janúar  fór fram árlegur hátíðarfundur Vísinda- og rannsóknarsjóðs. Fundurinn fór að venju  fram í Fjölbrautaskóla Suðurlands að viðstöddum forseta Íslands og rúmlega fimmtíu gestum sem komu víðsvegar að af Suðurlandi.
Hefð hefur verið fyrir því á hátíðarfundum að fá kynningu á einhverju verkefni, sem sjóðurinn hefur styrkt.  Þetta árið var það Guðmundur Örn Sigurðsson styrkhafi frá 2014 sem kynnti sitt áhugaverða verkefni; Jarðskjálftasvörun vindmylla í nærsviðs nágrenni. 
Sveinn Aðalsteinsson stjórnarformaður sjóðsins fór yfir niðurstöðu dómnefndar sjóðsins og gerði grein fyrir niðurstöðum. Sjóðurinn ákvað að þessu sinni að styrkja tvö verkefni um samtals kr. 1.200.000 -.  Styrkhafar sjóðsins 2016 eru: Aldís Erna Pálsdóttir vegna doktorsverkefnisins; Áhrif breytinga á landnotkun á vaðfuglastofna.
Aníta Þorgerður Tryggvadóttir og Ingibjörg Steinunn Sæmundsdóttur sameiginlega vegna mastersverkefnisins; Fjölþætt heilsurækt í sveitarfélögum.
Það var forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson sem afhenti styrkina.
Vísinda- og rannsóknarsjóður Suðurlands hefur styrkt fjölmörg rannsóknarverkefni sem öll eiga það sameiginlegt að snúa að einhverju leyti að Suðurlandi.  Þannig hefur sjóðurinn með stuðningi samfélagsins átt þátt í að búa til nýja og hagnýta þekkingu fyrir Suðurland.