INNA    HAFA SAMBAND     NÁMSVER

Search
Close this search box.
Í starfsþjálfun á námskeiðinu Tækifæri í ferðaþjónustu
Í vor lauk viðamiklu þróunarverkefni hjá Fræðslunetinu sem snýst um að þróa og tilraunakenna nám, undir heitinu Tækifæri í ferðaþjónustu, fyrir starfsfólk í ferðaþjónustu og þá sem hafa áhuga á starfi í greininni.
Verkefnið er samstarf Fræðslunetsins – símenntunar á Suðurlandi, Atorku – félags atvinnurekenda á Suðurlandi,  Fjölbrautabrautaskóla Suðurlands, Vinnumálastofnunar Suðurlandi,  Verslunarmannafélags Suðurlands og þjónustuskrifstofu stéttarfélaganna á Suðurlandi. Fræðslusjóður veitti styrk til verkefnisins.
Við undirbúning og skipulagningu námsins var leitað samstarfs við fyrirtæki og þjónustuaðila á öllu starfssvæði Fræðslunetsins sem nær frá Þorlákshöfn í vestri til Hafnar í Hornafirði í austri. Send var könnun til tæplega 100 aðila sem brugðust vel við og einnig voru fyrirtæki í Árnessýslu boðuð til fundar til nánara samstarfs svo námið mætti gagnast sem best, bæði vinnustöðum og þátttakendum.

Helstu námsþættir eru ferðaþjónusta, umhverfi og menning, þjónusta í víðum skilningi, mannauðurinn og vinnustaðurinn, meðferð matvæla og ofnæmi og óþol. Nokkrir sérfræðingar, hver á sínu sviði, sáu um bóklega þátt námsins en hluti námsins fór svo fram á vinnustöðum en það voru Hótel Hekla, Hótel Selfoss, Hótel Örk, Kaffi Krús og Tryggvaskáli. Kunnum við þeim bestu þakkir fyrir samstarfið sem var til mikillar fyrirmyndar.
Áætlað er að bjóða upp á sambærilegt nám víðar á starfssvæðinu í samvinnu við fyrirtæki á hverju svæði og hvetjum við áhugasöm fyrirtæki á Suðurlandi til að hafa samband við Fræðslunetið vegna þessa. Fyrir þá aðila sem eru í Vakanum, gæða- og umhverfiskerfi ferðaþjónustunnar, eða hugsa sér að innleiða það kerfi hjá sér, þá uppfyllir námið skilyrði Vakans í gisti- og veitingaþjónustu.
Föstudaginn 3. júní útskrifuðust þátttakendur úr náminu en þá útskrifaði Fræðslunetið yfir 80 manns sem luku margs konar námi, s.s. í Menntastoðum, Félagsliðabrú, Leikskóla- og stuðningsfulltrúabrú sem og Tækifæri í ferðaþjónustu. Einnig útskrifuðust þátttakendur í raunfærnimati á hestabraut, fyrir leikskólaliða og stuðningsfulltrúa ásamt raunfærnimati fyrir félagsliða.