INNA    HAFA SAMBAND     NÁMSVER

Search
Close this search box.
Athugið að Fræðslunetið er lokað vegna sumarleyfa 1. júlí – 6. ágúst.
Ragnhildur Gísladóttir

Formlegu skólastarfi vorannar lauk með útskriftarhátíð á Hótel Selfossi fimmtudaginn 3. júní sl. Þá útskrifuðust þeir sem hafa lokið einingabæru námi af einhverju tagi. Fimmtán námsmenn luku Menntastoðum og níu námsmenn útskrifuðst af þjónustubrautum. Starfið í vetur hefur gengið vel og verið blómlegt þrátt fyrir hinn umtalaða faraldur. Starfsfólkið brást fljótt við og setti nám yfir í fjarnám þegar ekki var mögulegt að halda úti staðkennslu. Reyndar er stór hluti náms hjá Fræðslunetinu ávallt í fjarkennslu svo af þessu sköpuðust engin vandræði, enda allir orðnir vel sjóaðir í krísustjórnun. Það er fróðlegt að skoða tölur yfir fjölda námsmanna okkar og kemur fjöldinn sem stundar nám eða nýtur ráðgjafar hjá Fræðslunetinu örugglega mörgum á óvart, en alls voru það tæplega 1100 manns nú á vorönn.

Á útskriftarhátíðinni flutti Ragnhildur Gísladóttir stutta ræðu sem fulltrúi þeirra sem lokið hafa námi hjá Fræðslunetinu. Ragnhildur var valin fyrirmynd í námi fullorðinna á síðasta ársfundi FA. Hún hefur staðið sig frábærlega og haldið ótrauð áfram námi og stundar nú nám í tölvunarfræði hjá HR. Ragnhildur gaf leyfi til að birta hér stytta útgáfu af ræðunni:
„Fyrir þremur árum síðan útskrifaðist ég úr Menntastoðum. Það var upphafið að miklum breytingum hjá mér. Eftir útskrift sótti ég um í háskólabrú Keilis og er núna í námi í Háskólanum í Reykjavík.
Ég var ekki á góðum stað í lífinu þegar ég byrjaði í námi og ef einhver hefði sagt við mig að 3 árum síðar myndi ég standa hér í pontu og halda ræðu þá hefði ég aldrei trúað því. En í dag langar mig samt að vera hvatning fyrir aðra sem ef til vill, eru í svipuðum sporum og ég var.
Það stóð upphaflega bara til að klára Menntastoðir og ég átti ekki von á að það myndi ganga vel fyrir sig. Ég var búin að telja mér trú um að ég gæti til dæmis ekki lært stærðfræði. Ég var næstum því hætt þegar ég átti að tala ensku fyrir framan bekkinn minn og var sannfærð um að danskan myndi verða til þess að ég myndi bara aldrei útskrifast. Ég yrði þessi nemi sem væri mörg ár að klára Menntastoðir.
Í upphafi námsins vorum við í bekknum spurð að því hvert við stefndum, mér fannst allir vera með skýr plön, nema ég… En mig dreymdi alltaf um að geta borið stúdentshúfu, sem tókst.
Eftir mikla hvatningu frá Eydísi og Sólveigu hjá Fræðslunetinu sótti ég um hjá Keili. Námsgrein sem hafði verið hindrun, eins og stærðfræði var það ekki lengur. Eftir Keili fór ég síðan í tölvunarfræði í HR þar sem í náminu er mikil stærðfræði og mér finnst það æði.
Stundum vildi ég óska að ég hefði gert þetta fyrr, en þetta var bara rétti tíminn til að hefja þennan hluta af minni vegferð. Þarna var fólkið sem átti að hjálpa mér, kenna mér, ögra og ýta áfram.
Það gaf mér ótrúlegt sjálfsöryggi og trú á sjálfa mig að ljúka Menntastoðum. Ég gat unnið með öðru fólki í hóp, ég gat hjálpað, ég þorði að spyrja spurninga og tjá mig. Ég gat lært! Ég þori að standa hér fyrir framan fullt af ókunnugu fólki og segja hluta af minni sögu, með von um að það hjálpi einhverjum. Ég er ekkert unglamb, en maður er aldrei of gamall til að láta drauma sína rætast.“
Til hamingju öll sem hafið verið hjá Fræðslunetinu. Lærum allt lífið!