Þriðjudaginn 09.desember útskrifuðust 17 nemendur af námsbrautinni fagnámskeið fyrir starfsfólk í félags- og heilbrigðisþjónustu. Námið er 210 klst. nám samkvæmt námskrá Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins.
Allir nemendurnir eru starfsmenn á hjúkrunarheimilum, 13 komu frá hjúkrunarheimilinu Hjallatúni í Vík og fjórir frá Klausturhólum á Kirkjubæjarklaustri. Námið var skipulagt út frá starfsemi Hjallatúns þar sem mjög stór hluti starfsfólksins var í náminu. Fundinn var hvaða dagar vikunnar væru heppilegastir og hvaða tímar dagsins var minnsta álagið. Ef nemendur voru á vaktinni þá fengu þeir aðstöðu til að fara afsíðis og taka þátt í náminu, ef aðstæður leyfðu það. Námið fór fram í fjarnámi tvo til þrjá daga í viku svo mættu nemendur þrisvar í staðlotu á laugardegi í Vík. Þar sem um var að ræða stóran hluta starfsfólks Hjallatúns þá tryggði Hjúkrunarforstjórinn þar að fyrirkomulagið gengi upp en vissulega jókst álagið á þeim starfsmönnum sem ekki voru í náminu meðan á þessu stóð. Það var því vel við hæfi að halda útskriftina á Hjúkrunarheimilinu Hjallatúni þar sem allir starfsmenn gátu fagnað áfanganum meðal heimilisfólksins.
Einhverjir velta fyrir sér hver sé ávinningurinn. Fyrir starfsmenn þá eykur námið þekkingu á því hvernig hægt er að bæta þjónustu hjúkrunarheimila við heimilisfólk á margvíslegan hátt auk þess að þau kynnast því hvaða tæki og aðferðir er hægt að styðjast við í starfinu. Þetta eykur sjálfstraust starfsfólks og það verður öruggara í starfi sínu.
Í lok námsins kynntu nemendur lokaverkefni sín þar sem fram komu hugmyndir þeirra um hvernig bæta má t.d. aðstöðu eða þjónustu við heimilisfólk eða jafnvel starfsumhverfi. Verkefnið er svo kynnt hjúkrunarforstjóra og gefur þannig starfsfólkinu tækifæri til að láta rödd sína heyrast. Guðrún Berglind Jóhannesdóttir hjúkrunarforstjóri Hjallatúns segir að hún taki nú þegar eftir breytingum á starfsfólkinu; það er farið að koma með hugmyndir og leggja til málanna meira en áður.