Það ríkti mikil gleði hjá Sláturfélagi Suðurlands þegar 10 manna hópur starfsfólks útskrifaðist úr raunfærnimati á móti viðmiðum atvinnulífsins sem sérþjálfaðir starfsmenn í matvælaiðnaði. Metið var í eftirtöldum deildum: Pökkun A og B, Söltun, Sláturgerð, 1944 réttir og Suðudeild. Einnig lauk hópurinn náminu Meðferð matvæla sem er 40 klukkustunda matvælanám.
Allir námsmennirnir fengu afhent Fagbréf sem Fræðslumiðstöð atvinnulífsins gefur út. Fagbréfið staðfestir þekkingu og reynslu þátttakenda og getur haft mikið gildi fyrir frekara nám eða starfsþróun.
Verkefnið hefur staðið yfir á þessari önn. Námsmenn hafa mætt á hverjum þriðjudegi í námið og staðið sig einstaklega vel og verið áhugasöm og jákvæð.
Fræðslunetið óskar hópnum innilega til hamingju með áfangann.