Search
Close this search box.

Dagana 28. og 30. maí sl. fóru fram vorútskriftir Fræðslunetsins, annars vegar á Höfn í Hornafirði og hins vegar á Selfossi. Að þessu sinni luku 37 námsmenn formlegu námi af félagsliðagátt, leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrú, menntastoðum og stökkpalli. Fjórir af þessum námsmönnum stunduðu námið á Höfn. Einnig fengu 25 þátttakendur staðfestingu á einingum sem þeir fengu metnar í raunfærnimati; af félagsliðagátt, leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabraut, vinnumarkaðshæfni og sjúkraliðabrú.

Það var hátíðarbragur yfir báðum þessum athöfnum og áfanganum fagnað innilega af námsmönnum, starfsfólki Fræðslunetsins, samstarfsaðilum úr Birtu starfsendurhæfingu og gestum.

Ávörp námsmanna

Berglind Ósk Borgþórsdóttir flutti ávarp fyrir hönd námsmanna á Höfn og í máli hennar kom meðal annars fram að hún hafi verið ánægð með ákvörðun sína að fara í nám og að ferlið hafi verið ánægjulegt, krefjandi og lærdómsríkt en líka skemmtilegt. Hún hvatti alla þá sem langar til að takast á við ný verkefni að skella sér í nám. Einnig ávarpaði Róslín Alma Valdemarsdóttir hópinn og minnti á hversu mikilvægt það væri fyrir íbúa samfélaga úti á landi að hafa tækifæri til náms- og starfsþróunar.

,,Þakklátur fyrir stuðning í náminu.”

Á Selfossi flutti Eyjólfur Sturlaugsson, framkvæmdastjóri Fræðslunetsins stutt ávarp. Gígja Marín Þorsteinsdóttir söng þrjú lög og Kristófer Rúnar Baldursson ávarpaði samkomuna fyrir hönd námsmanna. Hann var að ljúka námi af félagsliðagátt og var þakklátur fyrir þann stuðning sem hann fékk á leiðinni frá samnemendum sínum og starfsfólki Fræðslunetsins. Einnig kom fram í máli Kristófers að hann hafi alla tíð verið hræddur við formlegt nám, ekki nýtt tækifærin þegar þau gáfust og átt erfitt með einbeitingu. Kristófer tók þátt í raunfærnimati og stytti þannig umfang námsins sem hann taldi hafa styrkt sig sem einstakling og starfsmann á vettvangi. Þetta var því persónulegur sigur fyrir hann.

Þó svo að hér sé talað um útskriftir eða námslok þá er það nú þannig að við erum alltaf að læra og vísa einkunnarorð Fræðslunetsins til þess að í nútímasamfélagi þurfum við sífellt að bæta við okkur þekkingu og menntun.

Við óskum öllum útskriftarnemendum hjartanlega til hamingju með áfangann, velfarnaðar í framtíðinni og að allir draumar þeirra megi rætast.

Útskriftarhópurv2024
Hópurinn sem útskrifaðist af námsbrautinni Stökkpalli.