Search
Close this search box.
 Magdalena Falter og Sölvi Rúnar Vignisson styrkþegar Vísindasjóðs 2019

Á hátíðarfundi Vísinda- og rannsóknarsjóðs Surðurlands þann 16. janúar síðastliðinn voru veittir tveir styrir fyrir árið 2019. Styrkina hlutu að þessu sinni Sölvi Rúnar Vignisson og Magdalena Falter. Fengu þau hvort um sig 750.000 kr. styrk til doktorsverkefna sinna. Það var Eliza Reid forsetafrú sem afhenti styrkina.

 Í umsögn Sveins Aðalsteinssonar formanns stjórnar sjóðsins segir m.a. um doktorsverkefni styrkþega:

„Sölvi Rúnar fær styrk til að vinna að doktorsverkefni sínu sem ber heitið „Að fara eða vera?“ Ástæður farhátta ungra tjalda á Íslandi. Í verkefni Sölva Rúnars er farhegðun tjalda skoðuð sérstaklega. Flestar tegundir á Íslandi stunda far og fara til Evrópu eða Afríku yfir vetrarmánuðina en þó eru hér tegundir sem þreyja þorrann á Íslandi. Samanburðinn á þessum tveimur farháttum er hægt nota til þess að átta sig á þróun farhátta fugla almennt og sömuleiðis álykta um áhrif loftslagsbreytinga á farfuglastofna. Rannsókn Sölva Rúnars beinist að því að rannsaka hvað það er, í lífi ungs tjalds, sem fær hann til þess að fara eða vera. Tjaldurinn er einkennisfugl Suðurlands, ásamt því að vera einn af einkennisfuglum Íslendinga og hagnýting á niðurstöðum þessarar rannsóknar verður eflaust samfélagslega mikilvæg á sviði rannsókna, verndunar og áhuga almennings. Ávinningur fyrir svæðið felst helst í uppbyggingu á frekari rannsóknum, þekkingu og samvinnu við innlenda og erlenda vísindamenn á sviði fuglarannsókna og sem aðdráttarafl fyrir náttúruunnendur.

„Magdalena vinnur að doktorsverkefni sem ber heitið „Stafræn nýsköpun“ og frumkvöðlakraftar í dreifðum byggðum. Um þessa krafta í nýsköpun er í sjálfu sér lítið vitað hvað snertir dreifðar byggðar hérlendis. Meginmarkmið rannsóknarinnar er að kortleggja og lýsa frumkvöðlasamfélaginu í dreifðum byggðum landsins, benda á lykil gerendur og lýsa innri kröftum samfélagsins. Áhersla verkefnisins er á stafræna sviðinu þó efalaust megi yfirfæra að einhverju leyti niðurstöðurnar á aðrar atvinnugreinar t.d. ferðaþjónustu. Spurningar Magdalenu eru margar m.a. hvort unnt sé að lýsa megineinkennum frumkvöðlasamfélagsins í dreifbýli, hver sé staða stafrænnar nýsköpunar og frumkvöðla í dreifbýli og hvað upplifa frumkvöðlar sem megin hindranir og tækifæri í stafrænni nýsköpun í dreifbýli. Í byrjun verður samfélag stafrænnar nýsköpunar á Suðurlandi skoðað en síðar jafnvel í öðrum landshlutum.“

Það er Fræðslunetið símenntun á Suðurlandi og Háskólafélag Suðurlands sem reka Vísindasjóð Suðurlands. Hann er fjármagnaður með frjálsum framlögum fjölmargra félaga, fyrirtækja og stofnana um allt Suðurland. Vísindasjóður, fjármagnaður með þessum hætti, er einstakur á landsvísu.