Ólafur Ragnar Grímsson afhendir Gabriel Wetag'ula vísindastyrkinn

Forseti Íslands herra Ólafur Ragnar Grímsson afhendir Gabriel Wetang’ula styrkinn

Styrkur úr vísinda- og rannsóknarsjóði Fræðslunetsins var afhentur á hátíðarfundi föstudaginn 9. janúar. Það var doktorsneminn Gabriel N. Wetang’ula sem hlaut styrkinn að þessu sinni fyrir rannsóknir sínar á því  hvort rekja megi háan styrk kvikasilfurs í stórum urriða í Þingvallavatni til gufu sem kemur úr borholum við Nesjavelli. Verkefni hans heitir “Hefur loftborinnar mengun frá jarðvarmavirkjunum áhrif á lífríki ferskvatns? Does airborne pollutin from geothermal power plants affect freshwater biota?” Gabriel er doktorsnemi líf- og umhverisvísindadeildar Háskóla Íslands. Það var Forseti Íslands herra Ólafur Ragnar Grímsson sem afhenti styrkinn en það hefur hann gert í þau sjö skipti sem úthlutað hefur verið úr sjóðnum.

Segja má að rannsóknir Gabríels hafi mikið vísindalegt gildi m.a. með tilliti til hás verndargildis Þingvallavatns og lífríkis þess. Verkefnið er einnig mikilvægt fyrir jarðvarmavirkjanir hér á landi. Markmiðið er að kanna hvort og hvað mikið kvikasilfur gæti hugsanlega borist að vatninu með loftstraumum og að kanna rækilega kvikasilfursstyrk í lífverum á öllum þrepum svifkerfisins í vatninu.

Til þess að hljóta styrk úr vísinda- og rannsóknarsjóði Fræðslunets Suðurlands þurfa verkefni með ótvíræðum hætti að tengjast Suðurlandi og að vera á háskólastigi. Styrkupphæð er 750.000.-

Á hátíðarfundinum sem var vel sóttur komu fram nemendur frá Tónlistaskóla Árnesinga og fluttu þau tónlistaratriði með miklum myndarbrag og í lok fundarins var boðið uppá kaffi og meðlæti.