Viðbragðsáætlun Fjölheima ágúst 2020
Í nýrri reglugerð sem Heilbrigðisráðuneytið hefur gefið út varðandi sóttvarnir í skólum eru sett fram ákveðin viðmið sem Fræðslunetið hefur útfært á eftirfarandi hátt:
- Heimilt er að fjarlægð milli einstaklinga fari niður í einn metra. Seta námsmanna í skólastofum þar sem kennsla á vegum Fræðslunetsins fer fram er miðuð við að einn metri sé á milli námsmanna.
- Þrif verða aukin í húsakynnum á vegum Fræðslunetsins. Aukin þrif ná til kennslurýma, salerna og sameiginlegra rýma. Sótthreinsun á snertiflötum verður aukin.
- Umhverfi til að ástunda einstaklingsbundnar sóttvarnir verður bætt. Spritt stöðvum verður fjölgað og boðið verður uppá hanska. Mikil áhersla verður lögð á að kennarar og starfsmenn Fræðslunetsins ástundi einstaklingsbundnar sóttvarnir.
- Námsmenn sem vilja bera andlitsgrímur eru hvattir til að gera slíkt. Þeir beri sjálfir kostnað af grímunotkuninni.
- Fræðslunetið leitast við að skipuleggja allt nám þannig að námsmenn geti tekið þátt í því með fjarnámssniði treysti þeir sér ekki til að sækja staðbundið nám. Sumt nám verður þó ekki hægt að skipuleggja og framkvæma með rafrænum hætti eingöngu.
- Eitt megineinkennið á þessum COVID tímum er óvissa um framtíðina. Í því ljósi er rétt að hafa það í huga að reglugerðir og takmarkanir á skólahaldi geta breyst með stuttum fyrirvara. Því þurfa námsmenn að verða viðbúnir að hluti náms þeirra eða jafnvel allt nám fari fram með rafrænum hætti.
Ef námsmenn telja sig ekki geta sótt staðbundið nám við þessar aðstæður eru þeir hvattir að hafa samband við verkefnastjóra og láta þá vita af því.
Mikilvægt er að allir námsmenn sem sækja staðbundið nám ástundi einstaklingsbundnar sóttvarnir og styðji og hvetji aðra í slíku. Að virða fjarlægðarmörk, spritta sig reglulega, nota hanska og andlitsgrímur er allt eðlilegt og mikilvægt í skólastarfi í dag.